Leiknir vann botnslaginn í Njarðvík

Leiknismenn úr Reykjavík náðu í dýrmæt stig í botnslag 1. deildar karla í knattspyrnu í kvöld þegar þeir sigruðu Njarðvíkinga á útivelli, 2:0.

Danski framherjinn Jakob Spangsberg skoraði bæði mörkin, strax á fyrsta stundarfjórðung leiksins, en hann hefur nú gert 7 af 12 mörkum Breiðhyltinga í deildinni.

Þeir eru nú komnir með 8 stig og úr fallsæti, allavega í bili, en KS/Leiftur og Njarðvík eru fyrir neðan með 6 stig hvort. KS/Leiftur á leik til góða gegn ÍBV í Eyjum á morgun.

Þá var toppslagur í 2. deildinni í kvöld þar sem ÍR lagði Aftureldingu, 2:1, í Mosfellsbænum en liðin voru jöfn og efst fyrir leikinn. Tómas Þorsteinsson kom Aftureldingu yfir en Elías Ingi Árnason og Árni Freyr Guðnason svöruðu fyrir ÍR.

ÍR er nú með 25 stig, Afturelding er með 22 en Víðir er með 18 stig og á leik til góða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka