Íslenska landsliðið í knattspyrnu skipað stúlkum 16 ára og yngri vann í dag 2:0 sigur á Svíþjóð í leik um sjöunda sætið á Norðurlandamótinu sem fram fór hér á landi.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir úr Breiðabliki skoraði fyrsta markið eftir um hálftíma leik með skoti af vítateigslínunni, og Ásta Eir Árnadóttir bætti við öðru marki um miðjan síðari hálfleikinn þegar hún átti fyrirgjöf utan af kanti sem sigldi alla leið í mark Svía.
Ísland endaði því í sjöunda sæti og segir Kristrún Lilja Daðadóttir, þjálfari liðsins, frammistöðu liðsins mótinu gefa góð fyrirheit fyrir Evrópumótið í haust.
„Við áttum sannarlega skilið að vinna í dag og sigurinn hefði bara mátt vera stærri því við fengum fullt af færum. Það var aldrei spurning hvort liðið myndi vinna þennan leik.
Þetta er ótrúlega góð reynsla fyrir stelpurnar og það er frábært að fá þetta mót fyrir Evrópukeppnina í október. Maður sér ótrúlegan mun á stelpunum sem voru í hópnum um páskana og núna förum við í alla leiki til þess að vinna þá,“ sagði Kristrún Lilja.