Valur lagði Stjörnuna, 5:0

Margrét Lára skoraði þrennu og lagði upp eitt mark.
Margrét Lára skoraði þrennu og lagði upp eitt mark. mbl.is/Guðmundur

Valur vann góðan útisigur í Landsbankadeild kvenna í kvöld þegar liðið lagði Stjörnuna 0:5 í Garðabæ. Gestirnir komust yfir eftir að leikar höfðu staðið yfir í aðeins 80 sekúndur. Þar var að verki Margrét Lára Viðarsdóttir sem átti stórleik. Hún skoraði þrjú mörk fyrir Val í kvöld og lagði jafnframt upp eitt mark til viðbótar. Katrín Jónsdóttir og Dóra María Lárusdóttir skoruðu hin mörk Vals í leiknum. Valur er því áfram í toppsæti deildarinnar með fullt hús stiga, 27 stig eftir 9 umferðir en Stjarnan er í 3. sæti með 14 stig.

Mbl.is var á staðnum og uppfærði það markverðasta. Má sjá textalýsinguna hér að neðan.

Nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun!

Lið Stjörnunnar: Sandra Sigurðardóttir - Björk Gunnarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Margrét Guðný Vigfúsdóttir, Inga Birna Friðjónsdóttir, Edda María Birgisdóttir, Guðný Jónsdóttir, Elín Heiður Gunnarsdóttir, Guðríður Hannesdóttir, Eyrún Guðmundsdóttir, Karin Sendel.  Varamenn: Jóna Sigríður Jónsdóttir, Tinna Mark Antonsdóttir, Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir, Auður Lilja Harðardóttir, Guðrún Halla Finnsdóttir, Pamela Liddell.

Lið Vals: Randi Wardum - Sif Atladóttir, Pála Marie Einarsdóttir, Ásta Árnadóttir, Vanja Stefanovic, Katrín Jónsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Dóra María Lárusdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Helga Sjöfn Jóhannesdóttir, Sif Rykær. Varamenn: Málfríður Erna Sigurðardóttir, Rakel Logadóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Thelma Björk Einarsdóttir, Anna Garðarsdóttir, Kristín Ýr Bjarnadóttir, Ása Dögg Aðalsteinsdóttir.

0:1 - Margrét Lára Viðarsdóttir kemur Val yfir strax á 2. mínútu leiksins. Margrét fékk boltann í þvögu á vítateig Stjörnunnar, lék á laglega á tvo leikmenn og sendi knöttinn snyrtilega framhjá Söndru í marki Stjörnunnar.

Liðnar eru 22 mínútur af leiknum. Valur sækir mun meira en sóknir liðsins eru þó bitlausar. Fátt markvert að gerast þessar síðustu mínútur og ekkert um hættuleg færi. 

31. mínúta - Katrín Jónsdóttir hittir knöttinn illa fyrir opnu marki eftir að hafa fengið fína sendingu frá Margréti Láru Viðarsdóttur frá hægri. 

0:2 - Katrín Jónsdóttir fljót að bæta upp fyrir mistökin. Há sending frá Margréti Láru frá hægri og Katrín skallar knöttinn yfir Söndru á 33. mínútu.

35. mínúta - Sif Atladóttir með stungusendingu á nöfnu sína, Sif Rykær sem komst ein á móti markmanni. Sandra átti hins vegar gott úthlaup og fangaði knöttinn. 

0:3 - Boltinn barst til Margrétar Láru Viðarsdóttur rétt fyrir utan vítateig. Margrét leit stutt upp og þrumaði svo bara knettinum á markið. Glæsilegt mark hjá Margréti sem kemur á 36. mínútu. 

0:4 - Margrét Lára er búin að fullkomna þrennuna. Hún vippaði nú boltanum yfir markvörð Stjörnunnar sem stóð full framarlega. Margrét var stödd rétt utan vítateigs þegar hún skoraði markið sem kemur á 40. mínútu leiksins. 

Búið er að flauta til hálfleiks. Gestirnir frá Hlíðarenda eru yfir 4:0 og eru töluvert sterkari það sem af er leiks rétt eins og hálfleikstölurnar gefa til kynna. 

Síðari hálfleikur er hafinn og byrja Valsarar með knöttinn. Valur hefur gert breytingu á liði sínu. Málfríður Erna Sigurðardóttir kemur inn fyrir Helgu Sjöfn Jóhannesdóttur sem meiddist undir lok fyrri hálfleiks.

56. mínúta - Tvöföld skipting hjá Garðbæingum. Af leikvelli fara  Björk Gunnarsdóttir og Inga Birna Friðjónsdóttir en í stað þeirra koma Pamela Liddell og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir í liði Stjörnunnar. 

58. mínúta - Pamela Liddell ekki búin að vera lengi inn á en strax farin að láta að sér kveða. Hún fékk gult spjald fyrir tæklingu á Ástu Árnadóttur. 

Áhorfendur í kvöld eru 206. 

65. mínúta - Pamela Liddell með hættulegt skot af um 30 metra færi eftir ágætis upphlaup hjá Stjörnunni. 

68. mínúta - Margrét Lára Viðarsdóttir fer af leikvelli og inn á í hennar stað kemur Thelma Björk Einarsdóttir í liði Vals. 

76. mínúta - Síðasta skipting Vals. Kristín Ýr Bjarnadóttir kemur inn fyrir Vönju Stefanovic. 

0:5 - Dóra María Lárusdóttir sótti að marki Stjörnunnar og hafði töluvert pláss. Dóra ákvað svo að munda skotfótinn og spyrnti knettinum fast að markinu af um 20 metra færi og skoraði fallegt mark sem kemur á 77. mínútu. 

Rautt - Pamela Liddell staldraði stutt við á vellinum. Hún fékk nú sitt annað gula spjald fyrir brot á Ástu Árnadóttur og þar að leiðandi rautt spjald. Þetta gerðist á 80. mínútu. 

90. mínúta - Kristín Ýr Bjarnadóttir átti í tvígang hættuleg skot af stuttu færi inn í vítateig Stjörnunnar en Sandra Sigurðardóttir gerði vel og varði bæði skot vel með fótunum. 

Leiknum er lokið með sanngjörnum 5:0 sigri Vals. 

Stjarnan tekur á móti Val í Garðabænum í kvöld.
Stjarnan tekur á móti Val í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert