Fyrsta tap Selfyssinga kom í Eyjum

Viðar Örn Kjartansson sækir að marki ÍBV í leiknum í …
Viðar Örn Kjartansson sækir að marki ÍBV í leiknum í kvöld. mbl.is/GS

Selfyssingar töpuðu í kvöld sínum fyrsta leik í 1. deild karla í knattspyrnu í sumar, þegar þeir lágu fyrir Eyjamönnum á Hásteinsvelli, 3:0. Bjarni Hólm Aðalsteinsson skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu og Andrew Mwesigwa bætti skallamarki við eftir hornspyrnu í fyrri hálfleik. Það var svo Pétur Runólfsson sem innsiglaði sigurinn snemma í síðari hálfleik. Fylgst var með leiknum í textalýsingu hér á mbl.is.

ÍBV er með sigrinum enn í efsta sæti deildarinnar með 30 stig, og vann alla leiki sína í fyrri umferðinni utan eins. Selfyssingar eru hins vegar með 22 stig en halda öðru sæti deildarinnar. 

90. mín. Leik lokið. 

85. mín. Selfyssingar hafa fyrir nokkru játað sig sigraða og nú virðast bæði lið bíða þess að flautað verði til leiksloka. 

68. mín. Bjarni Rúnar átti ágætt skot að marki Selfyssinga sem Jóhann gerði vel í að verja. 

61. mín. Augustine Nsumba var borinn af velli og í hans stað kom Anton Bjarnason. 

60. mín. Zoran Miljkovic, þjálfari Selfyssinga, hefur gert þrjár breytingar á sínu liði til að reyna að breyta gangi leiksins. Arilíus Marteinsson og stórsöngvarinn Ingólfur Þórarinsson komu inn á í stað Boban Jovic og Gunnars Rafns Borgþórssonar á 54. mínútu, og Hjalti Jóhannesson var að koma inn á fyrir Sigurð Eyberg.

53. mín. 3:0. Arnór Eyvar átti lága fyrirgjöf frá hægri inn í vítateiginn og boltinn barst til Péturs Runólfssonar sem skoraði af stuttu færi. 

Hálfleikur. Verðskulduð forysta Eyjamanna sem byrjuðu leikinn betur og sýndu góða takta á fyrstu 20-25 mínútunum. Selfyssingum óx ásmegin eftir því sem á leið og eru til alls líklegir í seinni hálfleik. 

45. mín. Líklega besta sókn Selfyssinga sem endaði með því að Sævar Þór lagði boltann fyrir Gunnar Rafn en skot hans fór af varnarmanni og rétt fram hjá markinu. 

44. mín. Stórhættuleg aukaspyrna frá Henning Eyþóri en boltinn fór rétt fram hjá vinstri markvinkli Eyjamarksins. 

33. mín. Henning Eyþór kom sér í besta færi Selfyssinga til þessa en Bjarni Hólm tæklaði fyrir hann á síðustu stundu. Eyjamenn hafa átt nokkuð af ágætum marktilraunum og virðast líklegri til að bæta við mörkum en Selfyssingar að minnka muninn.

19. mín. Þrumuskot frá Augustine Nsumba að marki Selfoss sem Jóhann Ólafur varði mjög vel í horn. 

17. mín. Selfyssingum gengur illa að finna göt á vörn Eyjamanna og Heimir Hallgrímsson þjálfari ÍBV hvetur sína menn til að pressa duglega á andstæðingana þrátt fyrir 2:0 forskotið. 

16. mín. 2:0. Italo Maciel átti frábæra hornspyrnu beint á kollinn á Andrew Mwesigwa sem skallaði boltann í jörðina, stöng og inn. 

9. mín. 1:0. Bjarni Hólm Aðalsteinsson fyrirliði skorar úr vítaspyrnu. Arnór Eyvar Ólafsson átti skot sem fór í markstöng Selfyssinga, Atli Heimisson náði frákastinu og spyrnti að marki en boltinn fór í hönd varnarmanns Selfyssing og vítaspyrna var dæmd, sem Bjarni Hólm skoraði örugglega úr.

Sólin brosir sínu blíðasta en hæg gola er að sunnan. 

Þó nokkrir Selfyssingar hafa gert sér ferð til Eyja að fylgjast með sínum mönnum og láta vel í sér heyra.

Andri Ólafsson og Matt Garner í liði ÍBV eru meiddir og leika því ekki með í kvöld, og Ingi Rafn Ingibergsson tekur út leikbann.

Selfyssingar geta stillt upp sínu sterkasta liði nema hvað Arnar Þór Úlfarsson á enn við meiðsli að stríða. 


Byrjunarlið ÍBV: (4-5-1) Albert Sævarsson - Kristinn Baldursson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Andrew Mwesigwa, Þórarinn Ingi Valdimarsson - Arnór Eyvar Ólafsson, Pétur Runólfsson, Bjarni Rúnar Einarsson, Italo Maciel, Augustine Nsumba - Atli Heimisson.

Varamenn: Anton Bjarnason, Egill Jóhannsson, Gauti Þorvarðarson, Birkir Hlynsson, Elías Fannar Stefnisson. 

Byrjunarlið Selfoss: (4-4-2) Jóhann Ólafur Sigurðsson - Sigurður Eyberg Guðlaugsson, Agnar Bragi Magnússon, Dusan Ivkovic, Jón Steindór Sveinsson - Einar Ottó Antonsson, Boban Jovic, Gunnar Rafn Borgþórsson, Henning Eyþór Jónasson - Viðar Örn Kjartansson, Sævar Þór Gíslason.

Varamenn: Elías Örn Einarsson, Arilíus Marteinsson, Andri Freyr Björnsson, Ingólfur Þórarinsson, Hjalti Jóhannesson. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert