Fjarðabyggð og Víkingur Reykjavík gerðu með sér 2:2 jafntefli á Eskifjarðarvelli í dag í leik sem fram fór í 1. deild karla í knattspyrnu. Vilberg Marinó Jónasson kom heimamönnum yfir með marki úr vítaspyrnu á 8. mínútu en Víkingar jöfnuðu rétt áður en flautað var til hálfleiks, nánar til tekið í uppbótatíma dómara. Var þar á ferðinni Christopher Vorenkamp. Fjarðabyggð komst svo yfir á nýjan leik þegar Sveinbjörn Jónasson skoraði á 53. mínútu. Leit út fyrir sigur Fjarðabyggðar allt þar til komið var fram yfir venjulegan leiktíma þegar Víkingar fengu vítaspyrnu sem Þórhallur Hinriksson skoraði úr og tryggði sínum mönnum mikilvægt stig.
Víkingur R. hefur nú 17 stig í 5. sæti deildarinnar þegar Íslandsmótið er hálfnað en Fjarðabyggð er í 8. sæti með 11 stig.