Selfoss hafði betur gegn Víkingi R.

Einar Hjörleifsson varði víti fyrir Ólsara.
Einar Hjörleifsson varði víti fyrir Ólsara. mbl.is/Friðrik

Selfoss er áfram í 2. sæti fyrstu deildar karla í knattspyrnu eftir 1:0 sigur á Víkingi R., en heil umferð fór fram í kvöld. Leiknismenn höfðu stig af ÍBV með jöfnunarmarki í uppbótartíma og Víkingur Ólafsvík vann góðan sigur á Haukum. Fjarðabyggð og KA skildu jöfn líkt og KS/Leiftur og Þór, og loks vann Stjarnan Njarðvík, 4:2.

Það var Boban Jovic sem að skoraði sigurmark Selfyssinga þegar þeir tóku á móti Víkingi í kvöld. Markið skoraði Jovic í byrjun seinni hálfleiks með skoti utan teigs yfir Ingvar Kale í marki Víkinga. Víkingar sóttu mjög eftir þetta en höfðu ekki erindi sem erfiði. Selfyssingar halda því enn öðru sæti en Víkingar misstu af kærkomnu tækifæri til að blanda sér í toppbaráttuna.

ÍBV hafði unnið tíu leiki af ellefu fyrir leikinn á Leiknisvelli í kvöld. Bjarni Rúnar Einarsson kom Eyjamönnum yfir í fyrri hálfleik og allt leit út fyrir að þeir myndu innbyrða enn einn sigurinn þegar Leiknismenn fengu vítaspyrnu í uppbótartíma. Úr henni skoraði Jakob Spangsberg og jafnaði leikinn.

Víkingur Ólafsvík tók á móti Haukum úr Hafnarfirði sem fyrir leikinn voru í þriðja sæti, stigi á eftir Selfossi. Víkingar komust yfir um miðjan fyrri hálfleik með marki Josip Marosevic, en Marco Kirch jafnaði skömmu síðar. Jón Pétur Pétursson náði hins vegar að tryggja Víkingum sigur með marki í blálokin. Þess ber að geta að Einar Hjörleifsson markvörður Víkinga varði vítaspyrnu þegar um korter var eftir af leiknum, og er þetta fjórða vítaspyrnan sem hann ver í sumar.

Stjarnan nýtti tækifærið til að fara upp fyrir Hauka í þriðja sætið með 4:2 sigri á Njarðvík. Halldór Orri Björnsson kom Garðbæingum í 2:0 áður en Vignir Benediktsson minnkaði muninn. Grétar Atli Grétarsson jók forystu Stjörnunnar í 3:1 eftir rúmlega klukkutíma leik, en sjálfsmark Stjörnunnar kom Njarðvík aftur inn í leikinn. Ellert Hreinsson gulltryggði hins vegar sigur Stjörnunnar í uppbótartíma, og er liðið því áfram tveimur stigum á eftir Selfyssingum. Njarðvík situr hins vegar á botninum með sex stig.

Fjarðabyggð og KA sigla áfram lygnan sjó um miðja deild eftir viðureign liðanna fyrir austan í kvöld. Arnar Már Guðjónsson kom KA yfir en mörk frá Vilberg Marinó Jónassyni og Guðmundi Atla Steinþórssyni komu Fjarðabyggð í forystu. Steinn Gunnarsson jafnaði hins vegar metin fyrir KA og þar við sat.

Loks gerðu KS/Leiftur og Þór markalaust jafntefli í Ólafsfirði. KS/Leiftur er áfram í fallsæti og er nú fimm stigum á eftir næstu liðum, sem eru Leiknir og Fjarðabyggð, og sex stigum á eftir Þór sem er í 8. sæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert