Tryggvi Guðmundsson setti í gærkvöld nýtt met þegar hann skoraði tvö marka FH í sigrinum á Grevenmacher frá Lúxemborg í Kaplakrika. Tryggvi hefur nú skorað 8 mörk fyrir íslensk lið í Evrópukeppni, fleiri en nokkur annar, en fyrir leikinn voru hann og Mihajlo Bibercic jafnir með 6 mörk hvor.
Tryggvi jafnaði jafnframt Evrópumarkametið hjá FH en hann hefur nú skorað 4 mörk fyrir félagið í Evrópuleikjum, jafnmörg og Allan Borgvardt. Hin fjögur mörkin skoraði Tryggvi fyrir ÍBV, og það er líka félagsmet í Eyjum.
Arnar Gunnlaugsson, sem gerði eitt marka FH, skoraði fyrir þriðja íslenska liðið í Evrópukeppni en hann hafði áður gert tvö mörk fyrir ÍA og eitt fyrir KR. Aðeins einn annar leikmaður hefur skorað Evrópumörk fyrir þrjú íslensk lið en það er Sigurvin Ólafsson sem skoraði fyrir ÍBV, KR og FH.
Þetta var áttundi sigurleikur FH í Evrópukeppni og aðeins Skagamenn hafa gert betur af íslenskum liðum en þeir hafa unnið 14 Evrópuleiki. KR hefur unnið 8 Evrópuleiki eins og FH.