„Tímabilið er hálfnað og það er því ekki tímabært að að hugsa um titilinn en við erum í ágætri stöðu og eigum enn möguleika á að landa titlinum. Leikurinn gegn Fredrikstad var sá besti hjá okkur á tímabilinu og vonandi tekst okkur að halda áfram á sömu braut,“ sagði Veigar Páll Gunnarsson, leikmaður norska liðsins Stabæk, í gær en liðið er í efsta sæti deildarinnar þegar keppnistímabilið er hálfnað.
Veigar lagði upp tvö mörk í 5:1-sigri liðsins í uppgjöri toppliðanna á þriðjudag en hann er efstur á lista yfir stoðsendingar í deildinni, með 11 slíkar sendingar en næsti maður er með 6. „Þetta hefur bara þróast svona á þessari leiktíð. Ég er í sama hlutverki og undanfarin ár en ég viðurkenni það alveg að það hefur ekkert gengið hjá mér að skora mörk í ár. Það kemur vonandi í næstu leikjum. Við höfum ekki leikið nógu vel í undanförnum leikjum og það var því gott fyrir okkur að ná góðum leik gegn næstefsta liðinu,“ sagði Veigar en hann hefur skorað 2 mörk í 13 leikjum. Stabæk hefur aldrei sigraði í deildarkeppninni í Noregi en liðið hefur einu sinni fagnað norska bikarmeistaratitlinum. Árið 1994 lék liðið í fyrsta sinn í efstu deild og árið 1998 varð Stabæk bikarmeistari þar sem Helgi Sigurðsson var í aðalhlutverki.
Nýr völlur og líður vel hjá Stabæk