Íslandsmeistarar Vals taka á móti BATE Barisov frá Hvíta-Rússlandi í síðari viðureign liðanna í 1. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar en Hvít-Rússarnir fóru með sigur af hólmi í fyrri leiknum í síðustu viku, 2:0.
,,Mér finnst liðið vera að bæta sig í hverjum leik og við förum í þennan leik með það að markmiði að sigra og freista þess að komast áfram. Það er mikil gulrót handan hornsins,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari Valsmanna, við Morgunblaðið í gær en sigurliðið úr þessari rimmu mætir Anderlecht frá Belgíu.
Lærisveinar Willums börðust hart í fyrri leiknum í Hvíta-Rússlandi og staðan var markalaus allt fram á 70. mínútu en BATE-menn náðu að skora tvö mörk, bæði ólögleg að mati Willums. ,,Ég er með leikinn á spólu og þar sést það greinilega að mörkin hefðu ekki átt að standa. En það þýðir ekkert að dvelja lengur við það,“ sagði Willum en Hvít-Rússarnir slógu FH-inga út í keppninni í fyrra og lögðu grunninn að því með að vinna í Kaplakrika, 3:1, í fyrri leiknum en 1:1 urðu lyktir í Hvíta-Rússlandi.
Nánar í Morgunblaðinu í dag, það er meira í Mogganum.