Lið KR í 3. flokki kvenna komst alla leið í úrslitaleikinn á sterku alþjóðlegu knattspyrnumóti sem lauk í Árósum í Danmörku í dag.
KR kom mjög á óvart á mótinu, sem er fyrir stúlkur fæddar 1991 og síðar en lið KR var skipað leikmönnum fæddum 1992 og 1993. KR-stúlkur unnu sinn riðil þar sem þær gerðu jafntefli, 1:1, við Skovbakken frá Danmörku, unnu Sunndal frá Noregi 3:1 og Reading frá Englandi, 3:0.
Í undanúrslitum sigruðu þær HJK Helsinki frá Finnlandi, 1:0, en finnska liðið var talið sigurstranglegast á mótinu. Í úrslitaleiknum síðdegis í dag biðu svo KR-stúlkur sinn eina ósigur, 0:3 gegn Montpellier frá Frakklandi, sem vann mótið einnig í fyrra.
Þess má geta að KR-stúlkur eru efstar og taplausar í A-deild Íslandsmótsins í 3. flokki.
Á mótinu, Football Festival Denmark, er þátttökuliðum í flokki U17 ára skipt í tvo styrkleikaflokka og KR var í sterkari hópnum, sem kallast Evrópubikarinn. Annað íslenskt lið, HK, var með í neðri styrkleikaflokknum og endaði þar í 6. sæti eftir tap fyrir Limhamn-Bunkeflo frá Svíþjóð, 5:4, í leik um 5. sætið.