Stjórn Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar hefur ákveðið að láta Magna Fannberg Magnússon, þjálfara meistaraflokks karla, taka pokann sinn en þetta hefur fréttavefur Morgunblaðsins eftir öruggum heimildum.
Magni tók við þjálfun Fjarðabyggðar í nóvember á síðasta ári en liðið er sem stendur í áttunda sæti 1. deildar með 15 stig. Athygli vekur að uppsögnin kemur í kjölfar 2:4 útisigurs á Haukum í síðustu umferð, en fram að því hafði Fjarðabyggð ekki unnið sigur í átta leikjum í röð.
Magni er 28 ára Ísfirðingur og þjálfaði lengi yngri flokka HK en tók við starfi aðstoðarþjálfara hjá Grindavík 2006. Hann var síðan yfirþjálfari yngri flokka hjá Val í fyrra áður en hann hélt austur.