Skagamenn voru ekki langt frá því að slá finnska liðið Honka úr UEFA-bikarnum þegar liðin mættust öðru sinni á Akranesvelli í kvöld. 2:1-sigur dugði þó skammt enda vann Honka 3:0 í fyrri leiknum, en fyrirliði ÍA, Stefán Þór Þórðarson, var hæstánægður með frammistöðu liðsins.
„Við fórum í þennan leik með enga pressu á okkur og ætluðum að sparka okkur í gang með sigri, og að mínu mati var allt annað að sjá til liðsins. Auðvitað getur maður verið svekktur með að hafa ekki komist í 3:0 því við fengum fullt af færum til þess, en ég lít bara jákvæðum augum á þetta allt saman,“ sagði Stefán Þór, ánægður með fyrsta sigur ÍA síðan 20. maí þegar liðið lagði Fram í Landsbankadeildinni.
„Við lofuðum hverjir öðrum því að sýna okkar besta og það tókst loksins. Við erum að reyna að byggja upp sjálfstraustið í liðinu og þetta var ein trappa á þeirri leið. Allir strákarnir tóku ábyrgð í dag, hlupu um og djöfluðust og þá er þetta bara hrikalega gaman,“ bætti hann við.