Skoska knattspyrnuliðið Rangers, sem lék til úrslita í UEFA-bikarnum í vor, var í kvöld óvænt slegið út úr forkeppni Meistaradeildar Evrópu af FBK Kaunas í Litháen.
Liðin skildu jöfn í Skotlandi á dögunum, 0:0, en Kaunas vann í kvöld, 2:1. Útlitið var þó gott fyrir Rangers því Kevin Thomson kom liðinu yfir á 33. mínútu. Nerijus Radzius jafnaði fyrir Litháana í lok fyrri hálfleiks en Rangers var enn með pálmann í höndunum eftir að hafa skorað á útivelli.
En fjórum mínútum fyrir leikslok skoraði Linas Pilibaitis sigurmark FBK Kaunas, 2:1, og liðið mætir nú nær örugglega dönsku meisturunum AaB í tveimur leikjum þar sem sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar verður í húfi.
Þátttöku Rangers í Evrópumótunum er hinsvegar lokið því liðin sem nú falla úr keppni fara ekki lengra. FBK Kaunas er hinsvegar í góðum málum því þó liðið myndi ekki ná að komast í Meistaradeildina, færi það í það minnsta yfir í UEFA-bikarinn eftir leikina gegn dönsku meisturunum.