Eiður Smári: Ákvörðunin kom að ofan

Eiður Smári í leik með íslenska landsliðinu.
Eiður Smári í leik með íslenska landsliðinu. AP

Eiður Smári Guðjohnsen, landsliðsmaður í knattspyrnu, segir það hafa verið ákvörðun þáverandi formanns KSÍ, Eggerts Magnússonar, að Eiður og Arnór faðir hans skyldu ekki fá að spila landsleik saman í Eistlandi árið 1996. Þetta kemur fram í viðtali sem The New York Times birti í gær.

Hefðu þeir Eiður og Arnór fengið að spila landsleikinn saman hefði það orðið í fyrsta skipti í sögunni sem feðgar leika knattspyrnuleik fyrir landslið.

„Þetta er löng saga. Faðir minn hafði spilað fyrir landsliðið í 15 ár. Þjálfarinn var undir þrýstingi manna sem vildu að við spiluðum fyrst saman á Íslandi frammi fyrir okkar þjóð. Formaður knattspyrnusambandsins gaf fyrirskipun þess efnis að við ættum ekki að spila saman í leiknum í Eistlandi. Mánuði síðar fótbrotnaði ég svo í leik með U18-landsliðinu og var frá keppni í tvö ár. Þetta var grátlegt því þetta hefði getað orðið stór stund,“ sagði Eiður Smári, en landsliðsþjálfari á þessum tíma var Logi Ólafsson og formaður KSÍ eins og áður segir Eggert Magnússon.

Farið er fögrum orðum um Eið Smára í greininni og þá staðreynd að hann skuli standa af sér þær miklu breytingar sem orðið hafa á Barcelona-liðinu.

„Þegar nýr þjálfari kemur svífa lítil spurningamerki yfir öllum leikmönnum og maður vill sýna sig og sanna,“ sagði Eiður Smári, sem hefur fengið að spila mikið fyrir Barcelona-liðið á undirbúningstímabilinu og virðist sannarlega inni í framtíðaráætlunum þjálfarans Pep Guardiola.

Aðspurður um álagið sem fylgir því að spila fyrir svo sigursælt félag sem Barcelona er í tvö ár án þess að vinna titil svarar Eiður: „Þrýstingurinn er gríðarlegur, þetta er félag fólksins og það er mjög ástríðufullt. Barcelona-liðið er hjartsláttur borgarinnar. Þegar maður vinnur getur maður gengið um brosandi en hvert einasta tap veldur uppnámi. Fólkið vill fyrsta flokks árangur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert