Átu upp tveggja marka forystu

Njarðvík vann óvæntan sigur á Víkingi R.
Njarðvík vann óvæntan sigur á Víkingi R. mbl.is/Eggert

Selfyssingar sóttu þrjú stig norður yfir heiðar í kvöld þegar þeir unnu Þór 2:3 í 15. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. KA-menn sigruðu Hauka 1:0 á Ásvöllum og Njarðvíkingar gerðu sér lítið fyrir og lögðu Víking Reykjavík 1:0 suður með sjó.

Hreinn Hringsson kom Þór yfir á Akureyrarvelli í kvöld með marki úr vítaspyrnu á 7. mínútu, og Ármann Pétur Ævarsson bætti við öðru á meðan að Selfyssingar voru ennþá að ná áttum. Henning Eyþór Jónasson minnkaði muninn á 22. mínútu og Sigurður Eyberg Guðlaugsson jafnaði skömmu fyrir leikhlé. Það var síðan Ásgeir Börkur Ásgeirsson, sem nýkominn er frá Fylki að láni, sem að skoraði sigurmark Selfyssinga á 49. mínútu.

Tvö rauð spjöld litu dagsins ljós á Akureyrarvelli því Kristján Sigurólason og Ingólfur Þórarinsson voru báðir reknir af velli seint í leiknum.

Selfyssingar eru því eftir sem áður í öðru sæti deildarinnar en nú með 34 stig, fjórum stigum betur en næsta lið sem er Stjarnan og þremur stigum færra en ÍBV. Þórsarar eru hins vegar fimm stigum frá fallsæti í níunda sæti deildarinnar.

Arnar Már tryggði KA sigur

Arnar Már Guðjónsson skoraði sitt fjórða mark í deildinni í sumar þegar hann tryggði KA sigur á Haukum, 1:0, á gervigrasinu á Ásvöllum. Markið skoraði Arnar Már eftir aukaspyrnu á 27. mínútu. KA komst því upp fyrir Víking R. og Víking Ó. og er í fimmta sæti deildarinnar, jafnt Fjarðabyggð að stigum, en Haukar eru nú tíu stigum á eftir Selfyssingum og þurfa sannarlega að bíta í skjaldarrendur ætli þeir sér upp um deild.

Óvæntur sigur Njarðvíkur á Víkingi R.

Njarðvík vann óvæntan sigur á Víkingi R. suður með sjó þar sem að Marko Valdimar Stefánsson skoraði eina mark leiksins á 73. mínútu. Þar með eru Njarðvíkingar ekki lengur í neðsta sæti deildarinnar heldur því næstneðsta, stigi á eftir Leikni, en Víkingar eru í sjöunda sæti sextán stigum á eftir Selfyssingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert