Selfoss í humátt á eftir ÍBV

Sævar Þór skoraði eitt marka Selfyssinga í kvöld.
Sævar Þór skoraði eitt marka Selfyssinga í kvöld. mbl.is

Selfyssingar eru á fleygiferð í 1. deild karla í knattspyrnu og þeir unnu í kvöld Hauka með tveimur mörkum gegn engu. Leiknir náði í mikilvægt stig fyrir fallbaráttuna til Ólafsvíkur og KS/Leiftur gerði slíkt hið sama með því að gera jafntefli við Víkinga í Fossvoginum. Þá vann KA Njarðvík 2:1 eftir að hafa lent undir.

Sævar Þór Gíslason kom Selfyssingum yfir gegn Haukum á Selfossi með marki eftir tæpan hálftíma. Viðar Örn Kjartansson bætti svo við öðru marki á 83. mínútu. Þar með eru Selfyssingar komnir með sex stiga forskot á Hauka í 2. sæti deildarinnar en þeir eru áfram þremur stigum á eftir toppliði ÍBV.

Jakob Spangsberg kom Leikni yfir gegn Víkingi í Ólafsvík í kvöld á 12. mínútu en Josip Marosevic jafnaði fyrir heimamenn. Þar með heldur Leiknir forskotinu á KS/Leiftur sem er í botnsætinu, þremur stigum á eftir Leikni, og jafnframt á Njarðvík sem er í næstneðsta sæti tveimur stigum á eftir Leikni.

KS/Leiftur náði jafntefli í Fossvoginum þar sem liðið mætti Víkingi R. Agnar Þór Sveinsson kom norðanmönnum yfir en Egill Atlason jafnaði fyrir Víkinga sem eru um miðja deild.

Njarðvík komst yfir gegn KA á Akureyrarvelli með marki Arons Smárasonar á 30. mínútu en Arnar Már Guðjónsson jafnaði fyrir heimamenn. Það var síðan Elmar Dan Sigþórsson sem skoraði sigurmarkið þegar tæplega tíu mínútur lifðu leiks. KA er því áfram í fimmta sæti en er nú tveimur stigum á eftir Haukum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert