Fyrstu mótherjar Íslands í undankeppni HM í knattspyrnu verða Norðmenn, þann 6. september ytra. Norðmenn léku vináttuleik í gær gegn Írum sem lauk með 1:1-jafntefli. Tore Reginiussen sem leikur með Tromsø skoraði mark Norðmanna á 61. mínútu eftir að Robbie Keane leikmaður Liverpool hafði komið Írum yfir.
Norskir fjölmiðlar voru sammála um það eftir leikinn að Mohammed Abdellaoue hefði verið bestur norskra í leiknum. Eins og gengur og gerist í vináttuleikjum gerði Åge Hareiede landsliðsþjálfari Noregs ýmsar tilraunir og leyfði ungum og óreyndum leikmönnum að spreyta sig. Það þarf því ekki að vera að liðsuppstillingin gegn Írlandi hafi endilega verið í líkingu við liðið sem Norðmenn munu stilla upp gegn Íslandi.
Vilja norskir fjölmiðar meina að þeirra lið hafi stýrt leiknum við Íra og hafi að vissu leyti staðist loka prófraunina fyrir leikinn gegn Íslandi og eru kokhraustir fyrir hann enda margt jákvætt hægt að taka úr þeirra leik í gær. thorkell@mbl.is