„Það hefði auðvitað verið allt í lagi að vinna þetta með meira sannfærandi hætti en þetta eru skemmtilegustu sigrarnir. Þetta gefur okkur mikið upp á framhaldið að gera,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, eftir dramatískan 4:3-sigur á Fylki í VISA-bikarnum í knattspyrnu í dag.
„Það sem ég er ánægðastur með er karakterinn sem liðið sýndi eftir að hafa lent undir og líka þegar við fengum á okkur mjög ódýrt jöfnunarmark. Ég var farinn að hugleiða framlenginguna en það var virkilega sætt að klára þetta svona,“ sagði Ásmundur.
Þetta er annað árið í röð sem Fjölnir kemst í úrslitaleikinn og því má með sanni segja að Fjölnisliðið sé „bikarlið.“
„Já, og núna förum við alla leið,“ sagði Ásmundur.
„Við höfum verið hinum megin við borðið í síðustu leikjum og fengið á okkur mörk í lokin en mér fannst menn koma með gott hugarfar í þennan leik og það skóp sigurinn,“ bætti hann við.