Skallagrímur, KV, BÍ/Bolungarvík og Hamrarnir/Vinir leika í undanúrslitum 3. deildar karla í knattspyrnu sem fram fara 6. og 9. september en þessi lið komust áfram úr 8-liða úrslitunum sem lauk í kvöld.
Þá leiða saman hesta sína lið Skallagríms og Hamranna/Vina annars vegar og KV og BÍ/Bolungarvíkur hins vegar. Sigurvegarnir í þessum einvígjum leika í 2. deild á næsta ári.
BÍ/Bolungarvík sigraði Ými úr Kópavogi, 1:0, í Bolungarvík. Liðin voru jöfn samanlagt, 2:2, en BÍ/Bolungvarvík kemst áfram á marki á útivelli.
Skallagrímur úr Borgarnesi vann Hugin frá Seyðisfirði, 2:1, og samanlagt 3:2.
Sindri og KV úr Reykjavík gerðu jafntefli, 4:4, á Hornafirði. Þau voru jöfn samanlagt, 6:6, en KV kemst áfram á fleiri mörkum á útivelli.
Loks gerðu Berserkir úr Reykjavík og Hamrarnir/Vinir frá Akureyri jafntefli, 1:1, og þar með unnu Hamrarnir/Vinir 2:1 samanlagt.