„Yndislegt að sjá hann í netinu“

Jónas Guðni fékk faðmlag frá þjálfara sínum Loga Ólafssyni eftir …
Jónas Guðni fékk faðmlag frá þjálfara sínum Loga Ólafssyni eftir að sigur var í höfn. mbl.is/Ómar

„Ég veit eiginlega ekki hvað ég var að hugsa þegar ég tók spyrnuna en ég var búinn að ákveða að skjóta boltanum ofarlega í hornið og það var alveg yndislegt að sjá hann í netinu. Þetta eru sætustu sigrarnir, það verður ekki sætara en þetta,“ sagði Jónas Guðni Sævarsson sem tryggði KR sigur með síðustu spyrnunni í vítaspyrnukeppninni þegar liðið vann Breiðablik í undanúrslitum VISA-bikarsins í kvöld.

„Blikarnir eru með hörkulið og komu einbeittir til leiks og ætluðu sér sömu hluti og við. Mér fannst þetta vera þannig allan leikinn að hvorugt liðið vildi gefa á sér færi en reyna að lauma inn einu marki, og hann var í raun mjög kaflaskiptur,“ sagði Jónas Guðni.

„Í framlengingunni náðu þeir að skora snemma en við komum til baka og náðum að jafna og mér finnst það sýna hversu gott lið KR er með. Það var enginn sem gafst upp, við pressuðum bara á þá og það var ekkert vonleysi heldur hvöttum við hvorn annan og það er það sem við höfum verið að gera í sumar,“ bætti hann við áður en hann hélt til búningsklefa að fagna með félögum sínum.

Ítarlega er fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kemur út í fyrramálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert