Stjarnan heldur í vonina

Kristján Óli Sigurðsson úr Selfossi og Agnar Þór Sveinsson úr …
Kristján Óli Sigurðsson úr Selfossi og Agnar Þór Sveinsson úr KS/Leiftri eigast við í leiknum í kvöld. mbl.is/Guðmundur Karl

Stjarnan heldur enn í vonina um sæti í efstu deild karla í fótbolta á næstu leiktíð. Liðið lagði Víking R. 2:1 í 1. deildinni í kvöld og er því með 41 stig í þriðja sæti en Selfoss, sem lagði KS/Leiftur í kvöld er með 43 stig í öðru sæti. KS/Leiftur er fallið í 2. deild.

Eyjamenn eru á toppnum með 46 stig og leik til góða og þeir hefðu fengið tryggt sæti í kvöld hefðu Víkingar náð stigi eða stigum á móti Stjörnunni. Þeir verð hins vegar að bíða um sinn með að fagna sæti í efstu deild.

Jimmy Höyer kom Víkingum í 1:0 í Víkinni með marki úr vítaspyrnu á 40. mínútu en Magnús Björgvinsson jafnaði á 68. mínútu og Halldór Orri Björnsson tryggði sigur Garðbæinga á lokamínútunni.

Önnur úrslit:

Selfoss vann KS/Leiftur 3:1 og Tröllaskagaliðið er þar með fallið niður í 2. deild því það er átta stigum á eftir liðunum í 9. og 10. sæti þegar tvær umferðir eru eftir.  Kristján Óli Sigurðsson, Dusan Ivkovic og Sævar Þór Gíslason skoruðu fyrir Selfyssinga en Grétar Örn Sveinsson gerði mark KS/Leifturs.

Í Akureyrarslagnum hafði Þór betur, 3:1, eftir að hafa verið 1:0 undir á móti KA. Andri Júlíusson gerði mark KA á 18. mínútu en Þór fór í gang eftir hlé og Ibra Jagne jafnaði á 79. mínútu, Gísli Páll Helgason kom Þór yfir á 81. mínútu og þremur mínúutum síðar gulltryggði Aleksandar Linta 3:1 sigur með marki úr víti.

KA-mennirnir Elmar Dan Sigþórsson og Andri Júlíusson voru báðir reknir af velli, Elmar Dan á 83. mínútu og Andri fimm mínútum síðar.

Leiknismenn úr Reykjavík löguðu stöðu sína í neðri hluta deildarinnar með því að leggja Hauka 1:0 í Hafnarfirði. Jakob Spangsberg gerði eina mark leiksins á 16. mínútu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka