För Valskvenna til Slóvakíu þar sem liðið leikur í undanriðli Evrópukeppninnar í knattspyrnu gekk ekki þrautalaust fyrir sig. Seinkun varð á flugi þeirra frá Keflavík í gær og töskur margra þeirra urðu eftir í Kaupmannahöfn.
„Það var 1/3 hluti af okkur sem fékk töskurnar sínar en það urðu einhverjar 25 töskur eftir. Þær voru svo óvart keyrðar á hótel sem er 200 kílómetra í burtu en eru á leiðinni. Það er samt bara jákvæðni sem ríkir og við látum ekki svona smotterí trufla okkur,“ sagði Katrín Jónsdóttir, fyrirliði Vals, í samtali við mbl.is og bætti við að fyrsta æfing liðsins á keppnisvellinum í Sala yrði um leið og töskurnar skiluðu sér.
Valur leikur fyrsta leik sinn í riðlinum í fyrramálið þegar liðið mætir Cardiff kl. 9 að íslenskum tíma.