Eiga eftir að grenja svolítið undan okkur

Veigar Páll Gunnarsson hefur fulla trú á íslenskum sigri í …
Veigar Páll Gunnarsson hefur fulla trú á íslenskum sigri í dag. mbl.is

Norðmenn veltu sér mikið uppúr því þegar Veigar Páll Gunnarsson, leikmaður Stabæk og einn besti sóknarmaður norsku úrvalsdeildarinnar var ekki valinn í íslenska landsliðið sem lék gegn Aserbaídsjan á dögunum. Hann er hinsvegar í hópnum fyrir leikinn gegn Noregi á Ullevaal í dag og bíður spenntur eftir honum.

"Það var ansi mikið fjallað um þetta í blöðum, bæði hér í Noregi og heima á Íslandi, og ég átti aldrei von á að þetta yrði svona mikið. Þetta truflaði mig þó ekki mikið og fyrir mig er fyrst og fremst ánægjulegt að vera kominn aftur í landsliðshópinn, ekki síst fyrir leik hér í Ósló," sagði Veigar Páll við mbl.is í Ósló.

Hann er ágætlega bjartsýnn fyrir leikinn í kvöld. "Já, Norðmenn eru með gott lið og þegar maður horfir yfir allan hópinn má segja að breiddin sé meiri hjá þeim en okkur. En þeir eru ekki svo góðir að þeir eigi að valta yfir okkur og munurinn á liðunum er í raun það lítill að ég býst við jöfnum og spennandi leik. Liðið sem vill meira þegar á reynir, mun fara með sigur af hólmi. Ég hef fulla trú á því að við getum unnið þá.

Þeir eru með tvo rosalega góða framherja, John Carew og Thorstein Helstad, sem báðir hafa skorað mikið af mörkum. Þeir eru hættulegir, og síðan er vörnin þeirra þétt og erfitt að brjóta hana upp. En ef við verðum nógu harðir, eiga þeir eftir að grenja svolítið undan okkur," sagði Veigar Páll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert