Stöngin bjargaði Norðmönnum

Per Ciljan Skjelbred leikmaður norska landsliðsins í baráttu við Eið …
Per Ciljan Skjelbred leikmaður norska landsliðsins í baráttu við Eið Smára Guðjohnsen. Reuters

Blaðamenn Dagblaðsins í Noregi segja í umfjöllun sinni um landsleik Íslands og Noregs að stöngin hafi bjargað norska liðinu frá niðurlægingu. Að flestra mati var þetta leikurinn sem átti að efla sjálfstraust norska liðsins eftir slakt gengi að undanförnu en þess í stað fengu leikmenn liðsins kaldar kveðjur frá áhorfendum í leikslok eftir 2:2-jafntefli gegn Íslendingum.

 Heiðar Helguson og Eiður Smári Guðjohnsen skoruðu mörk Íslands en Veigar Páll Gunnarsson var nálægt því að tryggja Íslendingum þrjú stig þegar skammt var eftir af leiknum en skot hans fór í stöngina.

„Ég skil að áhorfendur séu svekktir með úrslitin en það voru ekki allir 17.000 á vellinum sem flautuðu á okkur í leikslok,“  sagði Brede Hangeland fyrirliði norska liðsins við Dagbladet í leikslok. John Carew, framherji Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni, var tekinn af leikvelli þegar korter var eftir af leiknum og skömmu síðar jafnaði Eiður Smári Guðjohnsen með marki beint úr aukaspyrnu.

Norskir blaðamenn voru undrandi á þeirri ákvörðun Hareide landsliðsþjálfara að taka Carew útaf.

„Ég veit ekki hvort það voru mistök að taka mig útaf. Þessi ákvörðun var tekin og ég get ekki breytt því,“ sagði Carew í viðtali við norsku sjónvarpsstöðina TV2.

Hareide varði ákvörðun sína og taldi að efla þyrfti varnarleikinn í stöðunni 2:1.

„Við vorum 2:1 yfir og þeir sóttu mikið upp hægri vænginn. Við settum Morten Gamst inn á til þess að bregðast við þeirri stöðu. Eftir að við fengum á okkur jöfnunarmarkið var þessi skipting ekki eins og við ætluðum okkur en við gátum ekki sett John aftur inná,“ sagði Hareide.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert