Upphitun hafin í miðborg Ósló

Búist er við talsverðum hópi íslenskra áhorfenda á leikinn á …
Búist er við talsverðum hópi íslenskra áhorfenda á leikinn á Ullevaal í dag.

Landsleikur Noregs og Íslands í undankeppni HM í knattspyrnu er byrjaður að setja svip sinn á miðborgina í Ósló, enda þótt enn sé hálfur sjöundi klukkutími þar til flautað verður til leiks á Ullevaal-leikvanginum.

Stuðningshópur íslenska landsliðsins, Áfram Ísland, var snemma byrjaður að hreiðra um sig utanhúss á veitingastaðnum 3brödre, 3bræður, og undirbúa upphitun fyrir leikinn en hún hefst þar formlega klukkan 13 að norskum tíma, eða 11 að íslenskum tíma. Þar eru þeir byrjaðir að selja trefla og annan varning í litum Íslands. Veðrið í Ósló er ágætt, í kringum 15 stiga hiti og bjart með smá sólarglennu af og til.

Skammt undan mátti sjá stóran hóp norskra knattspyrnuáhugamanna í landsliðsbúningi sinnar þjóðar samankominn á öðrum útiveitingastað í aðalgötu Óslóar, Karl Johanns Gate. Í götunni er einnig búið að setja upp sölubása þar sem hægt er að kaupa norska landsliðsbúninginn.

Norðmönnum er almennt spáð öruggum sigri en mikið er fjallað um leikinn í norskum dagblöðum í dag. Sérfræðingar blaðanna hafa þó varann á sér og segja að norska liðið hafi ekki verið sannfærandi uppá síðkastið, og þeir fara varlega í að spá liðinu góðu gengi í þessari undankeppni HM. Sigur gegn Íslandi sé þó algjör krafa og forsenda fyrir því að góður árangur náist í keppninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert