Kjartan: Hefðu mátt dúndra boltanum í burtu

Kjartan þurfti sjaldan að taka á honum stóra sínum í …
Kjartan þurfti sjaldan að taka á honum stóra sínum í kvöld. mbl.is/Kristinn

„Þetta var mjög góður leikur af okkar hálfu. Við héldum boltanum vel og áttum marga góða kafla auk þess að skapa fullt af færum á meðan að þeir áttu varla færi fyrir utan þessi tvö mörk sín,“ sagði Kjartan Sturluson, markvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu eftir 2:1-tapið gegn Skotum í kvöld.

„Við fengum bæði mörkin á okkur úr föstum leikatriðum og það er náttúrulega ekki eitthvað sem við ætluðum okkur. Það má segja að þetta hafi verið frekar ódýr mörk,“ sagði Kjartan, sem verður ekki sakaður um mörkin. Fyrra mark Skota kom eftir hornspyrnu en það síðara upp úr vítaspyrnu sem að Kjartan varði. Þar voru íslensku leikmennirnir heldur seinir á vettvang.

„Ég ætla ekki að vera fúll yfir einu né neinu þó þetta hafi farið svona en auðvitað hefði verið skemmtilegra ef þeir hefðu dúndrað boltanum í burtu. Markvarslan gleymist líklega út af þessu en svona er lífið,“ sagði Kjartan.

Ítarleg umfjöllun um leik Íslands og Skotlands verður í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert