„Ég er fúll yfir að hafa tapað leiknum en ég er að mörgu leyti ánægður með spilamennsku liðsins,“ sagði Ólafur Jóhannesson þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu eftir 2:1-tapið gegn Skotum á Laugardalsvelli í kvöld, í undankeppni HM.
„Við byrjuðum leikinn vel og fengum fín færi sem ekki tókst að nýta. Síðan fengum við á okkur mark og það „drap“ okkur í smá tíma en við náðum okkur síðan á strik á ný og héldum boltanum vel,“ sagði Ólafur, sem hefði viljað sjá íslenska liðið sækja betur.
„Eins og stundum áður þá vorum við fáliðaðir á síðasta þriðjungi leikvallarins. Mér fannst við ekki þora að fara nógu framarlega á völlinn,“ sagði Ólafur.
Ítarleg umfjöllun um leik Íslands og Skotlands verður í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.