Eftir dramatískan sigur Danmerkur á Portúgal í gær í undankeppni HM í knattspyrnu sniðgengu leikmenn og þjálfari danska liðsins fréttamenn allra miðla utan sjónvarpsstöðvarinnar TV3. Ástæðan ku vera hörð gagnrýni á liðið eftir síðustu leiki þar á undan.
Að leik loknum kom aðeins fjölmiðlafulltrúi landsliðsins, Lars Berendt, að máli við fjölmiðla með eftirfarandi skilaboð:
„Við tileinkum sigurinn þeim sem trúðu á okkur. Fólk hefur kallað eftir betri frammistöðu og við svöruðum því kalli á vellinum í dag. Þessu fögnum við með stuðningsmönnum okkar á vellinum, fólkinu heima og okkur sjálfum.“
Þetta hefur valdið talsverðri gagnrýni á danska liðið og meðal annars hafa samtök verið stofnuð á Facebook sem bera nafnið „Landsliðið - hópur af vælandi kellingum“ og hafa 789 skráð sig þegar þetta er skrifað.
„Að hundsa fjölmiðla fyrir að hafa gagnrýnt liðið er svo barnalegt og fáránlegt að við sem „neytendur“ komumst ekki hjá því að íhuga að hundsa svona stelpuhóp. Og ef að Morten Olsen tók þátt í þessu má reka hann á stundinni (hann var hvort sem er orðinn frekar nálægt því),“ segir í yfirlýsingu á síðu hópsins.
Þá hafa stjórnmálamenn og knattspyrnuspekingar fordæmt þessa ákvörðun.
„Maður hundsar ekki fjölmiðlana. Að sama skapi finnst mér að fjölmiðlar megi ekki láta eins og þetta sé það versta sem gerst hefur í sögu danska knattspyrnusambandsins. Gerum nú bara gott úr þessu og setjum þetta á bakvið okkur, við náðum jú frábærum sigri,“ sagði Flemming Östergaard, framkvæmdastjóri FCK.