Kristján Örn sakaður um óheiðarleika

Kristján Örn í leik með íslenska landsliðinu.
Kristján Örn í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is

Atvik í leik Brann og Viking í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær hefur orðið til þess að Uwe Rösler, þjálfari Viking, og Allan Gaarde, leikmaður Viking, sáu ástæðu til að saka landsliðsmanninn Kristján Örn Sigurðsson um óíþróttamannslega framkomu.

Leiknum lyktaði með 1:1-jafntefli en á 75. mínútu, skömmu eftir að Viking hafði komist yfir, lá leikmaður Viking óvígur á vellinum vegna meiðsla. Kristján Örn tók þá ákvörðun að spyrna boltanum ekki út af heldur halda áfram leiknum, en til þess er ætlast af dómurum ef ekki er um höfuðmeiðsl að ræða, og það féll ekki í kramið hjá öllum.

„Kristján Örn sá að leikmaðurinn lá á jörðinni. Hann átti að sparka boltanum út af, við erum vön því í Evrópu. Íþróttamannsleg framkoma er ekki alltaf til staðar,“ sagði Þjóðverjinn Uwe Rösler.

Allan Gaarde tók í sama streng og hafði greinilega gleymt því að hann framdi sama „glæp“ í leik fyrr á leiktíðinni.

„Vanalega spyrnir maður boltanum út af í svona stöðu. 20 leikmenn á vellinum hefðu sparkað honum út af. Mér er sama þó það séu komnar nýjar reglur, ef að allir aðrir stoppa þá ætti hann [Kristján Örn] að stoppa líka. Hann er að upplagi heiðarlegur náungi svo ég vona að hann hafi einfaldlega ekki séð að allir voru hættir,“ sagði Gaarde.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert