Riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu hefst í kvöld en þar keppa 32 lið í fjórum átta liða riðlum.
Evrópumeistarar Manchester United eiga titil að verja og Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri félagsins, á sér þann draum heitastan að United verði fyrst liða til að verja titilinn, en liðið hefur leik á morgun þegar það tekur á móti Villarreal í Manchester.
Keppnin hefst í kvöld með tveimur leikjum í riðlum A, B, C og D og á morgun verða tveir leikir í riðlum E, F, G og H.
Í A-riðli mætast í kvöld Chelsea og Bordeaux annars vegar og hins vegar Roma og CFR frá Rúmeníu.
Leikir kvöldsin í B-riðli eru Panathinaikos og Internazionale og síðan Bremen og Anorthosis frá Kýpur.
Í C-riðli leika Basel og Shakhtar frá Úkraínu, og Barcelona tekur á móti Sporting Lisabon.
PSV og Atletico mætast í D-riðlinum í kvöld og Marseille tekur á móti Liverpool.
Í E-riðli eru síðan United, Villarreal, Celtic og Aab. F-riðil skipa Steaua Búkarest, Bayern München, Lyon og Fiorentina. Porto, Fenerbache, Dynamo Kiev og Arsenal.
BATE Borisov frá Hvíta-Rússlandi, sem sló út Val í ár og FH í fyrra, leikur í H-riðli ásamt Juventus, Zenit St, Pétursborg og Real Madrid.
Luiz Felipe Scolari, knattspyrnustjóri Chelsea, segir Meistaradeildina ekkert mikilvægari en ensku deildina. „Meistaradeildin er mikilvæg en leikirnir í henni eru ekkert mikilvægari en deildarleikir hjá okkur, Við þurfum bara að hugsa um einn leik í einu,“ segir Scolari.
Þau gleðitíðindi bárust í gær frá Stanford Bridge að Michael Ballack veti leikið með Chelsea á ný eftir meiðsli. „Hann mun spila, en hvort það verður í 45 mínútur, 60 eða 70 get ég ekkert sagt um núna,“ sagði Scolari í gær.
Liverpool heimsækir Marseille en liðin mættust þar í fyrra og þá vann Liverpool 4:0 og komst áfram, eftir 1:0 tapa á Anfield. skuli@mbl.is