Knattspyrnumaðurinn Kjartan Henry Finnbogason var enn á ný á skotskónum þegar lið hans Sandefjord lagði Start að velli, 2:1, í norsku 1. deildinni í kvöld. Þessi úrslit þýða að toppbaráttan í deildinni er orðin hnífjöfn.
Kjartan skoraði sigurmarkið fyrir Sandefjord um miðjan síðari hálfleik.
Start er enn efst í deildinni með 51 stig en fast á hæla liðsins koma Árni Gautur Arason og félagar í Odd Grenland með 50 stig. Sandefjord er svo í þriðja sæti með 47 stig og átta stiga forskot á næsta lið. Það lítur því allt út fyrir að bæði Árni Gautur og Kjartan Henry fari upp um deild í haust en þrjú efstu liðin fara beint uppí úrvalsdeildina.