Maður leiksins í bikarúrslitaleiknum í dag var án alls efa Hólmfríður Magnúsdóttir hjá KR en hún skoraði þrennu þegar KR vann Val. 4:0, á Laugardalsvellinum. Segir hún það ekkert aðalatriði heldur hitt að liðsheildin hafi sýnt hvað í þeim býr.
„Ég er auðvitað stolt og ánægð með sigurinn og bikarinn fer mér ekkert illa í hendi heldur,“ sagði hún hlæjandi að verðlaunaafhendingu lokinni í Laugardalnum en Hólmfríður hélt jafnframt uppá 24. ára afmælið sitt í dag.
„Ég var heppin í dag og fékk mig lausa þrisvar sinnum og náði að klára þau færi í öll skiptin. En liðið allt var að skína í gegn og ekki síst markvörður okkar, hún María, sem gerði sannarlega sitt til að halda okkur yfir þegar mest á reyndi. Hún á náttúrulega að fá landsliðssæti og ekki seinna en í gær.“
Sjá einnig frá bikarúrslitaleiknum:
Elísabet: Versti leikur Vals í fimm ár.
KR með bikarinn á loft í Laugardalnum.
Bein textalýsing mbl.is frá leiknum.