Siim væntanlega í banni í lokaumferðinni

Tommy Nielsen og Dennis Siim í leik með FH.
Tommy Nielsen og Dennis Siim í leik með FH. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dennis Siim, leikmaður FH, hefði að öllu eðlilegu átt að taka út leikbann í leik FH og Keflavíkur í Landsbankadeildinni í gær, en vegna mistaka á skrifstofu KSÍ kom málið aldrei fyrir fund aga- og úrskurðarnefndar á þriðjudaginn var.

Siim fékk sitt fjórða gula spjald í leik FH og Vals laugardaginn 13. september og dómari leiksins færði það rétt til bókar. Einhverra hluta vegna fórst það hins vegar fyrir að rétt leikskýrsla kæmi fyrir aganefndina og því var Siim ekki úrskurðaður í leikbann á þriðjudaginn var.

Ef allt hefði hins vegar verið eðlilegt hefði hann átt að fá eins leiks bann á þeim fundi og bannið tekið gildi á hádegi föstudaginn 19. september. Þá hefði hann eftir sem áður getað leikið með FH á móti Fram miðvikudaginn 17. ágúst eins og hann gerði.

Þar fékk hann gult spjald og líka í leik FH og Keflavíkur í gær þannig að á aganefndarfundi á morgun verður hann væntanlega úrskurðaður í tveggja leikja bann vegna 6 áminninga. Bannið tekur gildi á hádegi föstudaginn 26. september. Siim getur því leikið með FH á móti Blikum á miðvikudaginn en verður í banni í síðasta leiknum á móti Fylki - og væntanlega fyrsta leik á næstu leiktíð verði hann hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert