Þó allar væru stúlkurnar í kvennalandsliðinu meira eða minna miður sín að leik loknum á laugardaginn voru þó nokkrar sérstaklega sem tóku tapið nærri sér. Hólmfríður Magnúsdóttir var ein þeirra en hún var næsta greinilega lögð í einelti í leiknum gegn Frökkum og ítrekað brotið á henni án þess að á væri dæmt.
Hólfríður lá þrívegis eftir óvíg í stundarkorn í leiknum og þurfti tvívegis að fara út af til aðhlynningar.
„Þetta er með því versta sem ég man eftir og ég undrast mikið hvað þær sluppu með skrekkinn af hálfu dómarans. Ég veit ekki hvort þær vissu af því að ég meiddist á æfingu á fimmtudaginn fyrir leikinn og reyndu að koma mér út en þær fóru langt yfir strikið, “ sagði Hólmfríður við Morgunblaðið.
„Fyrsta brotið var olnbogi beint í andlitið á mér, í því næsta er bara hoppað yfir mig og svo tækluðu þær mig mjög illa minnst einu sinni. Svo furðulegt sem það nú er þá fann ég hins vegar ekki fyrir þessum meiðslum frá fimmtudeginum fyrr en komið var í blálok leiksins. Þá fann ég aðeins til en það þarf bara góða hvíld og ætti að verða í lagi,“ sagði Hólmfríður í samtali við Morgnblaðið.
Sjá ítarlega umfjöllun um leik Íslands og Frakklands í undankeppni EM í Morgunblaðinu í dag.