Segjast hafa keypt UEFA-bikarinn

Zenit vann sigur á Manchester United í árlegum leik UEFA-bikarmeistara …
Zenit vann sigur á Manchester United í árlegum leik UEFA-bikarmeistara og Evrópumeistaranna. Reuters

Meðlimir rússnesks glæpagengis sem handteknir voru á Spáni segjast hafa „keypt“ UEFA-bikarinn fyrir Zenit St. Pétursborg sem liðið vann á síðustu leiktíð, að því er dagblaðið ABC greinir frá.

Zenit vann sem kunnugt er 2:0-sigur á Glasgow Rangers í úrslitaleiknum í maí eftir að hafa gjörsigrað Bayern München í undanúrslitunum, og heillaði liðið margan knattspyrnuáhugamanninn.

ABC segir hins vegar frá því að Gennadios Petrov, höfuðpaur stórrar rússneskrar glæpaklíku, hafi í símtali við félaga sinn rifjað upp að þeir notuðu 20-40 milljónir evra til að „kaupa“ undanúrslita- og úrslitaleikinn, en spænska lögreglan hleraði símtalið.

Lögreglan hefur sett af stað rannsókn en ekki enn komist að því hvort leikmönnum eða yfirmönnum hjá Bayern og Rangers var mútað í aðdraganda leikjanna.

Ekki liggur heldur fyrir í hvaða tilgangi glæpaklíkan ætti að hafa haft áhrif á úrslit leikjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert