Ólafur: Kjartan hefur fengið mjög slæma umfjöllun

Ólafur segir Makedóna betri en bæði Skota og Norðmenn.
Ólafur segir Makedóna betri en bæði Skota og Norðmenn. mbl.is/Hákon

„Það er lítið um þetta lið að segja annað en það að mér sýnist þetta vera mjög gott lið og líklegt til afreka,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, eftir að hann tilkynnti í dag 22 manna leikmannahóp fyrir leikina við Holland og Makedóníu í undankeppni HM sem fram fara um miðjan mánuðinn.

Hópinn má sjá með því að smella hér.

Stefán Logi Magnússon og Kjartan Sturluson hafa verið aðalmarkverðir landsliðsins í flestum leikjum þess undir stjórn Ólafs og Kjartan varði mark Íslands í leikjunum við Noreg og Skotland. Ólafur ákvað hins vegar að breyta til í þetta skiptið og velja Árna Gaut Arason, sem spilaði síðast landsleik gegn Dönum í nóvember á síðasta ári, og Gunnleif Gunnleifsson markmann HK.

„Ég varð ekki fyrir neinum sérstökum vonbrigðum með Kjartan. Það verður bara að segjast eins og er að það er mjög erfitt að geta ekki átt markmann sem auðvelt er að benda á sem besta markmanninn, eins og hefur verið í gegnum tíðina. Það er ekki gott mál en við eigum einhverja 5-6 markmenn sem eru allir mjög svipaðir. Ég hef jafnan valið Stefán Loga og Kjartan hingað til en ákvað að breyta til núna,“ sagði Ólafur á fréttamannafundi sem haldinn var í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Aðrir markmenn ekki fengið sömu gagnrýni

„Ég vil meina að Kjartan hafi fengið mjög slæma umfjöllun hjá fólki og fréttamönnum fyrst og fremst út af því að hann hefur verið landsliðsmarkvörður. Þeir markmenn sem hafa ekki verið valdir í landsliðið hafa ekki fengið sömu gagnrýni. Hvert einasta atriði hjá honum er sett upp í neikvæðni á meðan að aðrir markmenn eru sagðir gera alla hluti frábærlega. Ég vil meina að það geti hafa farið svolítið illa í Kjartan og hann hefur ekki verið jafn öruggur núna og hann var framan af sumri.

Árni Gautur er náttúrulega reynslumikill markvörður og hefur verið að standa sig vel í Noregi, og ég er mjög ánægður með að hann sé farinn að spila aftur. Gunnleifur, sem ég vel nú í fyrsta skipti, hefur líka staðið sig mjög vel í sumar líkt og Hannes [Þór Halldórsson] hjá Fram og þessir tveir sem hef valið áður, en ég taldi rétt að taka þessa tvo núna,“ bætti hann við.

Mjög ánægður með að fá Brynjar Björn aftur

Brynjar Björn Gunnarsson snýr aftur inn í hópinn eftir meiðsli en hann er næstleikjahæsti leikmaður liðsins á eftir Hermanni Hreiðarssyni. Ólafur er ánægður með að geta valið Brynjar Björn aftur.

„Brynjar Björn hefur verið meiddur en er í fínu standi núna og ég spjallaði lengi við hann áður en ég valdi þetta lið. Hann hefur mjög gott hugarfar og var 100% tilbúinn í þetta verkefni. Hann er kannski ekki 90 mínútna maður tvo leiki í röð en hann gefur okkur góða möguleika og er sterkur leikmaður. Ég er mjög ánægður með að fá hann. Arnór Smárason valdi ég líka í síðasta hóp en leyfði honum svo að spila með U21 landsliðinu. Helgi Valur Daníelsson og Theódór Elmar Bjarnason koma svo aftur  inn eftir meiðsli,“ sagði Ólafur, sem valdi Gunnar Heiðar Þorvaldsson ekki í hópinn að þessu sinni.

Jóhannes Karl er inni í myndinni

„Gunnar Heiðar er búinn að vera meiddur en er aðeins að koma til núna og spilaði hálfan leik um daginn í bikarnum, en ég ákvað samt að velja hann ekki í þetta skiptið,“ sagði Ólafur, sem valdi ekki heldur Jóhannes Karl Guðjónsson sem leikið hefur vel upp á síðkastið í ensku 1. deildinni.

„Það eru allir inni í myndinni en hann var ekki valinn núna. Ég get bara valið 22 og hann er ekki í þeim hópi núna,“ sagði Ólafur.

Ísland mætir Hollandi á útivelli 11. október og mætir síðan Makedóníu á Laugardalsvelli fjórum dögum síðar. Ólafur segir þessa tvo andstæðinga þá erfiðustu í riðlinum.

Makedónar betri en bæði Skotar og Norðmenn

„Leikirnir gegn Hollandi og Makedóníu eru erfiðari fyrir okkur en leikirnir við Skotland og Noreg vil ég meina. Holland er langbesta liðið í þessum riðli, það er alveg klárt, en það er einu sinni þannig í fótbolta að það eru alltaf möguleikar.

Ég vil svo meina að Makedónar séu með betra lið en bæði Norðmenn og Skotar. Við höfum oft átt í erfiðleikum með að spila við þessi lið frá austur-Evrópu, sem eru líkamlega sterk og fljót og halda boltanum vel. Menn voru að tala um að það hefði komið á óvart þegar Makedónar unnu Skota, en það kom mér ekki á óvart. Þetta eru því tveir erfiðir leikir en það er bara gaman að því,“ sagði Ólafur.

Þurfum að þora framar á völlinn

„Ég er ágætlega ánægður með þessa tvo leiki sem búnir eru. Núna vonast ég bara til að við getum hækkað aðeins "standardinn" í næstu leikjum og þorað að færa okkur framar á völlinn og halda boltanum. Varnarleikurinn hefur verið ágætur, við höfum ekki látið sundurspilað okkur, og öll mörk nema eitt sem við höfum fengið á okkur hafa verið eftir fast leikatriði. Ef að spilamennskan er nógu góð þá fáum við stig, og ef menn geta gengið sáttir út af vellinum eftir að hafa gert sitt besta þá er ég ánægður.“

Brynjar Björn er kominn á fulla ferð með liði sínu …
Brynjar Björn er kominn á fulla ferð með liði sínu Reading. www.readingfc.co.uk
Gunnar Heiðar er nýkominn til baka úr meiðslum en var …
Gunnar Heiðar er nýkominn til baka úr meiðslum en var ekki valinn að þessu sinni. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert