„Við slógum Laugardalsvöllinn í gær, sem betur fer, en eins og staðan er núna þá er 5-6 cm. snjólag á vellinum. Veðurspáin gerir ekki ráð fyrir nema 2-4 stiga hita næsta sólarhringinn og við verðum að bíða og sjá til fram yfir hádegi hvernig staðan verður á vellinum,“ sagði Jóhann G. Kristinsson vallarstjóri Laugardalsvallar við mbl.is í morgun en úrslitaleikurinn í VISA-bikarkeppni KSÍ á milli KR og Fjölnis er á dagskrá á morgun.
„Ef ástandið verður svipað þá munum við funda hér hjá KSÍ og ræða þá möguleika sem eru í stöðunni. Það hefur ekki verið mjög kalt að undanförnu og ég vona að hitinn úr jörðu muni hjálpa til við að bræða snjóinn af vellinum í dag,“ bætti Jóhann við en það er fátítt að snjór þeki Laugardalsvöllinn á þessum árstíma.
„Það er landsleikur hjá A-landsliði karla á dagskrá þann 15. okt. gegn Makedóníu og fyrir þann leik verða tvær æfingar hjá liðunum á vellinum. Og í lok mánaðarins mun kvennalandsliðið leika síðari umspilsleikinn um laust sæti á EM.“