KR varð í dag bikarmeistari í knattspyrnu karla með 1:0 sigri á Fjölni í úrslitaleik á Laugardalsvelli. Leikurinn sjálfur var afskaplega daufur en KR-ingar eru þó vel að sigrinum komnir. Sigurmarkið var sjálfsmark Kristjáns Haukssonar sem kom þegar aðeins nokkrar mínútur lifðu leiks.
Fremur kalt var í veðri þó sólskin vermdi nokkra vanga. Hvort það hafði áhrif er vandi um að spá en leikurinn fer í engar bækur fyrir að vera vel leikinn. Þvert á móti var það mat allmargra áhorfenda að hann hefði verið með allra daufasta móti.
Lítið var um færi í fyrri hálfleik og langt á milli þeirra í þeim síðari. Munurinn á hálfleikjunum sá að í þeim fyrri var nokkuð jafnræði með liðunum tveimur en í þeim síðari átti KR mun meira í leiknum án þess þó að mikil færi sköpuðust. Var aðeins hægt að tala um eitt gott færi í öllum síðari hálfleiknum en þar varði Þórður Ingason vel.
Markið var ekki gegn gangi leiksins en nokkuð óverðskuldað og þungt að tapa bikartitli á sjálfsmarki. Að sama skapi gleðin ekki jafn fölskvalaus hjá KR fyrir vikið.
Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.
KR hefur því ellefu sinnum fagnað sigri í bikarkeppninni en Fjölnir hefur aldrei sigrað. Fjölnir lék til úrslita í fyrra gegn FH og var það í fyrsta sinn sem Fjölnir komst í úrslitaleikinn en þar hafði FH betur, 2:1.
KR lék til úrslita árið 2006 gegn Keflavík og þar hafði Keflavík betur, 2:0. Árið 1999 sigraði KR síðast í bikarkeppninni eftir 3:1 sigur gegn ÍA. KR varð bikarmeistari árið 1994 og 1995. Á árunum 1960-1967 fagnaði KR titlinum í bikarkeppninni sjö sinnum.
Byrjunarlið Fjölnis: Þórður Ingason - Magnús Ingi Einarsson, Óli Stefán Flóventsson, Kristján Hauksson, Gunnar Valur Gunnarsson - Ágúst Þór Gylfason, Gunnar Már Guðmundsson, Tómas Leifsson - Pétur Georg Markan, Davíð Þór Rúnarsson, Ólafur Páll Snorrason.
Varamenn: Ómar Hákonarson, Ólafur Páll Johnson, Ásgeir Aron Ásgeirsson, Steinar Örn Gunnarsson, Heimir Snær Guðmundsson, Andri Valur Ívarsson, Geir Kristinsson.
Byrjunarlið KR: Stefán Logi Magnússon - Skúli Jón Friðgeirsson, Grétar Sigfinnur Sigurðarson, Pétur Marteinsson, Guðmundur Reynir Gunnarsson - Viktor Bjarki Arnarsson, Bjarni Guðjónsson, Jónas Guðni Sævarsson, Gunnar Örn Jónsson - Björgólfur Takefusa, Guðjón Baldvinsson.
Varamenn: Kristján Finnbogason, Gunnlaugur Jónsson, Atli Jóhannsson, Óskar Örn Hauksson, Ásgeir Örn Ólafsson, Guðmundur Pétursson, Davíð Birgisson.