Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði eina mark leiksins þegar lið hans Esbjerg vann AGF í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Þetta er fyrsta deildarmark Gunnars Heiðars fyrir liðið en hann kom til Esbjerg frá norska liðinu Vålerenga í sumar.
Markið skoraði Gunnar Heiðar á 24. mínútu þegar hann fylgdi á eftir skoti félaga síns, Martin Vingaard. Eyjamanninum var síðan skipt af leikvelli á 73. mínútu.
Hann hlaut sem kunnugt er ekki náð fyrir augum Ólafs Jóhannessonar landsliðsþjálfara þegar 22 manna hópur fyrir leikina við Holland og Makedóníu var valinn á dögunum.
Sigurinn lyfti Esbjerg úr botnsætinu en liðið er nú í næstneðsta sæti deildarinnar með sex stig eftir níu leiki.