Giancarlo Abete, formaður knattspyrnusambands Ítalíu, tilkynnti í dag að allt yrði reynt til að koma í veg fyrir að ítalskir knattspyrnuáhugamenn komist á næstu útileiki landsliðs síns.
Ítalir sóttu Búlgara heim á laugardag í undankeppni HM í leik sem endaði með markalausu jafntefli. Þrjár ítalskar fótboltabullur voru handteknar fyrir að brenna búlgarska fánann á meðan á leiknum stóð. Einnig var nokkuð um óeirðir fyrir utan leikvanginn í Sofiu áður en leikurinn hófst.
„Frá og með deginum í dag munum við ekki biðja um miða á útileiki fyrir okkar stuðningsmenn, ef við getum ekki vitað með vissu hverjir þeir eru. Við munum hætta að biðja um miða en þurfum einnig að vera á verði gagnvart því að menn nái í miða með öðrum hætti, eins og gerðist í leiknum gegn Kýpur [í september],“ sagði Abete.
Næsti útileikur Ítala er gegn Svartfellingum í mars.