Kanadíska knattspyrnuliðið Vancouver Whitecaps, sem Teitur Þórðarson þjálfar, vann í nótt meistaratitilinn í hinni norður-amerísku USL1-deild. Sveinar Teits léku til úrslita við Puerto Rico Islanders og unnu 2:1-sigur.
Liðin börðust einnig um efsta sætið í deildakeppninni fyrr á leiktíðinni og þar höfðu Islanders betur. Sigurinn í úrslitakeppninni var því sæt hefnd fyrir Whitecaps, og ljóst að árangur Teits á sinni fyrstu leiktíð með liðið er frábær.
USL1-deildin er næstefsta deild Norður-Ameríku á eftir MLS-deildinni. Lið úr USL1-deildinni geta hins vegar ekki unnið sig upp í MLS-deildina samkvæmt núgildandi reglum. Lið úr USL1-deildinni geta að sama skapi ekki fallið í USL2-deildina.
Forráðamenn Whitecaps hafa hins vegar sett stefnuna á að komast í MLS-deildina þegar tvö sæti í henni verða föl árið 2010, og hjálpar meistaratitillinn í nótt sjálfsagt mikið til í þeim málum.
Í USL1-deildinni leika átta lið frá Bandaríkjunum, tvö frá Kanada og eitt frá Púertó Ríkó.
Teitur hefur áður þjálfað í Svíþjóð, Noregi og Eistlandi en þar gerði hann lið Flora að eistneskum meisturum. Hann þjálfaði svo KR árið 2006 og fram á mitt sumar 2007.