Umboðsmenn og útsendarar stórliða í evrópsku knattspyrnunni fá slæma útreið í bók sem kom út í Noregi í gær. Norsku blaðamennirnir Lars Backe Madsen og Jens M. Johansson hafa á undanförnum misserum kafað ofan í málin. Þeir hófu rannsókn sína eftir að Nígeríumaðurinn John Obi Mikel fór með eftirminnilegum hætti frá norska liðinu Lyn til Chelsea, með andartaksviðkomu hjá Manchester United. Og því máli er enn ekki lokið og virðist margt óhreint vera í pokahorni þeirra aðila sem sáu um hans mál.
Höfundar bókarinnar Týndi demanturinn segja m.a. frá því að þeir hafi öruggar heimildir fyrir því að lið á borð við Arsenal og Barcelona brjóti lög og reglur FIFA til þess að geta náð til sín ungum og efnilegum leikmönnum.
Nánar er fjallað um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.