Leikur Írlands og Íslands ekki sýndur

Íslenska kvennalandsliðið leikur einn sinn mikilvægasta leik frá upphafi á …
Íslenska kvennalandsliðið leikur einn sinn mikilvægasta leik frá upphafi á sunnudag. mbl.is/Ómar

„Við erum búin að reyna allt sem mögulegt er en það er bara enginn enginn sem vill taka upp leikinn. Við höfum farið allar leiðir sem mögulegt er að fara,“ sagði Hrafnkell Kristjánsson, íþróttafréttamaður RÚV, í samtali við mbl.is, en nú er orðið ljóst að fyrri leikur Írlands og Íslands um sæti á EM í Dublin á sunnudag verður ekki sýndur í sjónvarpi.

„Við höfum talað við þær tvær stöðvar sem sýna fótbolta í Írlandi, írska ríkissjónvarpið og Setanta, og Setanta ætlar ekki að sýna neitt en írska sjónvarpið verður með eina tökuvél á staðnum til að taka upp fyrir fréttir,“ sagði Hrafnkell, en slík vandamál hefur áður verið hægt að leysa með því að greiða verktaka fyrir að sjá um upptöku á leiknum. Það var ekki hægt nú.

„Borgum náttúrulega ekki hvað sem er“ 

„Við reyndum líka að tala við sjálfstæð fyrirtæki um að taka leikinn upp gegn greiðslu, sem venjulega hefur kostað okkur um milljón krónur, en það er bara enginn sem hefur áhuga á að taka hann upp. Þess vegna sitjum við í súpunni. Við borgum náttúrulega ekki hvað sem er en þetta hefur ekki einu sinni náð svo langt að menn biðji um hærri greiðslu. Áhuginn er bara núll, og við verðum bara að bíta í það súra epli.

Við höfum áður getað leigt búnað og mannskap í öðrum löndum en því miður hefur það ekki gengið núna. Eini kosturinn sem við höfum er því að lýsa leiknum í útvarpi,“ sagði Hrafnkell.

Útsending frá leiknum í Frakklandi var afar dýr

„Auðvitað höfum við heyrt menn segja að ef þetta væri karlaleikur yrði öllu kostað til en það er bara allt annað landslag í kvennaboltanum. Hvaða skítakarlaleikur sem er er tekinn upp út um allan heim en við höfum reynt það á Englandi, Grikklandi, Slóveníu, Tékklandi og fleiri stöðum að sjónvarpsstöðvar þar hafa engan áhuga á kvennaleikjunum.

Við lentum líka í þessu í Frakklandi en þá tók stór umboðsskrifstofa að sér að taka upp leikinn því þeir sáu fram á að geta stórgrætt á Íslendingum. Án þess að nefna neinar tölur þá borguðum við margfalt meira fyrir þann leik heldur en við myndum borga venjulega fyrir stakan karlaleik. Við höfum því teygt okkur ansi langt áður en það er ekki hægt núna,“ bætti hann við.

Áhuginn á leikjum kvennalandsliðsins gríðarlegur

Þó áhugi á kvennaknattspyrnu sé lítill á Írlandi hefur hann verið í mikilli sókn hér heima og Hrafnkell segir RÚV hafa fundið vel fyrir því.

„Áhuginn á þeim leikjum kvennalandsliðsins sem við höfum sýnt hefur verið gríðarlegur. Reyndar er sjónvarpsáhorf á flesta íþróttaviðburði hér á Íslandi miklu meiri en þekkist annars staðar á á byggðu bóli. Kvennalandsleikirnir hafa ekki farið varhluta af því heldur verið meðal vinsælustu íþróttaviðburða hjá okkur, og þess vegna höfum við teygt okkur ansi langt til að fá leiki. Því miður er staðan þannig núna að við teljum fullreynt með að félagar okkar á Írlandi sjái gróðavon í að leigja okkur búnað og mannskap.

Þessar þreifingar hafa staðið síðan við vissum að Írar yrðu mótherjar en þessi er niðurstaðan og við verðum bara að bíta í það helvíti súra epli,“ sagði Hrafnkell, og bætti við að seinni leik þjóðanna sem fram fer í Reykjavík næstkomandi fimmtudag yrði gerð mjög góð skil.

Útsending frá leiknum við Frakka á dögunum kostaði sitt.
Útsending frá leiknum við Frakka á dögunum kostaði sitt. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert