Laugardalsvöllur ekki leikhæfur - UEFA synjaði beiðni KSÍ um að nota Kórinn

Svona leit Laugardalsvöllurinn út fyrir bikarúrslitaleikinn.
Svona leit Laugardalsvöllurinn út fyrir bikarúrslitaleikinn. mbl.is/Árni Sæberg

,,Völlurinn er ekki leikhæfur í dag og útlitið er ekkert allt of bjart," sagði Jóhann Kristinsson vallarstjóri Laugardalsvallar við fréttavef Morgunblaðsins í morgun en Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu á að mæta Írum í síðari viðureign liðanna í umspili um laust sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins á fimmtudagskvöld. Leikurinn verður ekki færður í Kórinn eða í Egilshöll því ekki er leyfilegt að spila í Höllunum samkvæmt reglum UEFA.

,,Það er lítið hægt að gera núna. Allt sem hefur bráðnað síðustu daga er á efsta yfirborði vallarins sem klaki en það ólíkt aðstæðunum fyrir bikarúrslitaleikinn. Þá var púðursnjór ofan á þurrum vellinum sem var hægt að skafa í burtu. Það er ekki hægt að taka núna í burtu þann snjó sem er því völlurinn myndi eyðileggjast ef við reyndum að gera það," sagði Jóhann.

Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ sagði við mbl.is í morgun að ef ekki verður hægt að spila leikinn á Laugardalvellinum á fimmtudaginn þá verður nýr leikdagur settur á föstudaginn og ef það gengur ekki þá á laugardaginn.

,,Ef völlurinn verður ekki leikhæfur á leikdegi þá höfum við tvo daga til að hlaupa uppá. Við óskuðum eftir því að hafa Kórinn sem varavöll en því var synjað af UEFA. Við verðum bara á stóla veðurguðina og þeir gangi með okkur í lið,“ sagði Þórir.

Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands er spáin fyrir fimmtudaginn að það verði bjartviðri og hiti í kringum frostmark á höfuðborgarsvæðinu en spáð er hlýnandi veðri á föstudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert