Einhverjir kunna enn að velkjast í vafa um hvaða úrslit duga Íslandi gegn Írlandi í dag til að komast í lokakeppni Evrópumóts kvenna í knattspyrnu. Í Dublin gerðu liðin 1:1-jafntefli og því kemst Ísland áfram ef liðin gera markalaust jafntefli á Laugardalsvelli í kvöld, á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.
Að sama skapi kemst Írland áfram ef liðin gera annars konar jafntefli en 0:0 eða 1:1.
Ef liðin gera einnig 1:1-jafntefli í kvöld verður gripið til framlengingar. Verði ekkert mark skorað í henni tekur vítaspyrnukeppni við sem sker úr um hvort liðið fer til Finnlands í ágúst á næsta ári.
Ef bæði lið skora í framlengingunni, og jafnt verður þegar henni er
lokið, fer Írland samt sem áður áfram á fleiri mörkum skoruðum á
útivelli. Þannig kæmist Írland t.d. áfram ef staðan væri 2:2 að lokinni framlengingu.
Ef annað liðið skorar fleiri mörk en hitt í framlengingunni fer það lið vitaskuld áfram. Ef annað liðið hefur betur í venjulegum leiktíma fer það lið að sama skapi að sjálfsögðu áfram.
Síðasti séns
Þetta er síðasti möguleiki íslenska liðsins á að komast í úrslitakeppni EM sem fram fer í Finnlandi í ágúst á næsta ári. Komist liðið þangað eignast Ísland í fyrsta skipti fulltrúa í úrslitakeppni stórmóts í knattspyrnu. Það er því full ástæða til að hvetja fólk til að fjölmenna á Laugardalsvöll en leikurinn hefst kl. 18:10 og er miðasala á vellinum og á midi.is.