Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu sigraði Íra 3:0 á Laugardalsvelli í kvöld og tryggði sér þar með sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Finnlandi á næsta ári.
Þetta er í fyrsta sinn sem A-landslið í knattspyrnu kemst á úrslit á stórmóti og er þetta því sögulegur áfangi í íslenskri íþróttasögu.
Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.
Dóra María Lárusdóttir skoraði fyrsta mark leiksins á 24. mínútu. Staðan var 1:0 í hálfleik. Margrét Lára Viðarsdóttir bætti við öðru marki á 60. mínútu og Dóra María bætti við þriðja markinu á 69. mínútu.
Fyrri leiknum lauk með 1:1-jafntefli.
Byrjunarlið Íslands: María Björg Ágústsdóttir - Ásta Árnadóttir, Katrín Jónsdóttir, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir - Dóra Stefánsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Edda Garðarsdóttir - Dóra María Lárusdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir.
Byrjunarlið Írlands: Emma Byrne - Alisha Moran, Meabh De Burca, Niamh Fahey, Yvonne Tracy, Jemma O'Connor, Ciara Grant, Aine O'Gorman, Mary Therese McDonnell, Michelle O'Brien, Stephanie Curtis.