Ísland í þriðja styrkleikaflokki fyrir EM kvenna

Það skýrist þann 18. nóvember hverjir mótherjar Íslands verða á …
Það skýrist þann 18. nóvember hverjir mótherjar Íslands verða á EM. mbl.is/Golli

Knattspyrnusamband Evrópu birti í kvöld hvernig liðunum 12 verður raðað upp fyrir dráttinn í riðla úrslitakeppni EM kvenna sem fram fer í Finnlandi í ágúst 2009. Dregið verður í riðlana 18. nóvember og Ísland er í þriðja styrkleikaflokki.

Leikið verður í þremur riðlum á EM og verða fjórar þjóðir í hverjum riðlanna. Átta lið komast áfram úr riðlakeppninni, tvö lið úr hverjum riðli og svo lið númer þrjú í tveimur riðlum af þremur en liðið með lakasta árangur í þriðja sæti fellur úr keppni ásamt neðstu liðunum í hverjum riðli.

Í fyrsta styrkleikaflokki fyrir dráttinn eru Þýskaland og Svíþjóð, tvær sterkustu þjóðirnar samkvæmt útreikingum UEFA, og gestgjafar Finnlands. Finnland verður í A-riðli og Þýskaland og Svíþjóð fara síðan í sinn hvorn hinna riðlanna, B-riðil og C-riðil.

Í öðrum styrkleikaflokki eru Danmörk, England, Frakkland og Noregur. Tvö þeirra lenda saman í riðli og hin tvö fara í sinn hvorn riðilinn.

Í þriðja styrkleikaflokki eru svo liðin fimm sem komust áfram í gegnum umspilið, Ísland, Rússland, Úkraína, Holland og Ítalía. Tvö og tvö þeirra verða dregin saman í riðla og eitt þeirra verður síðan í þeim riðli þar sem verða tvö lið úr öðrum styrkleikaflokki.

Þetta þýðir að ásamt því að leika í riðli með einhverju þessara þriggja, Finnlandi, Svíþjóð eða Þýskalandi, fær Ísland í sinn riðil eitthvert liðanna úr 2. styrkleikaflokki, Danmörku, England, Frakkland eða Noreg, mögulega tvö þeirra, og annaðhvort eitt eða ekkert þeirra liða sem komu í gegnum umspilið.

Það skiptir því gífurlega miklu máli fyrir íslenska landsliðið hvernig dregst í riðlana þann 18. nóvember. Möguleikarnir á að komast í 8-liða úrslitin yrðu væntanlega bestir með því að lenda í riðli Finnlands, A-riðlinum, og sleppa þá jafnframt við Svía og Þjóðverja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert