Veigar Páll Gunnarsson er í liði ársins í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hjá netmiðlinum Nettavisen, rétt eins og hjá öðrum fjöl-
miðlum í Noregi.
Veigar er einn þriggja leikmanna Noregsmeistaranna í Stabæk sem eru í 11 manna úrvalsliði Nettavisen en síðan eru þrír af fjórum varamönnum sem valdir eru einnig frá Stabæk.
Veigar er næstefstur af leikmönnum Stabæk í einkunnagjöf Nettavisen og áttundi í röðinni af þeim sem valdir eru í liðið. Hann er með 5,31 í meðaleinkunn en til þess að komast í liðið þurfa leikmenn að hafa spilað 17 leiki af 26 í deildinni.
Samherji Veigars, brasilíski miðjumaðurinn Alanzinho, trónir á toppnum með 5,92 í meðaleinkunn og félagi hans í framlínunni, Daniel Nannskog, er með 5,15.
Indriði Sigurðsson hjá Lyn og Gylfi Einarsson hjá Brann koma næstir af Íslendingunum í deildinni með 5 í meðaleinkunn hvor. Kristján Örn Sigurðsson hjá Brann er með 4,94, Ólafur Örn Bjarnason hjá Brann 4,89, Haraldur Freyr Guðmundsson hjá Aalesund 4,87, Birkir Már Sævarsson hjá Brann 4,83, Theódór Elmar Bjarnason hjá Lyn 4,79, Garðar Jóhannsson hjá Fredrikstad 4,65, Birkir Bjarnason hjá Bodö/Glimt 4,58, Ármann Smári Björnsson hjá Brann 4,5 og Pálmi Rafn Pálmason hjá Stabæk fær 4, enda lék hann aðeins 9 leiki á lokasprettinum, flesta sem varamaður.