Emil Hallfreðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, náði ekki að skora úr tveimur vítaspyrnum í viðureign Reggina við Udinese á útivelli í 16-liða úrslitum ítölsku bikarkeppninnar í dag.
Dæmd var vítaspyrna á Udinese þegar tvær mínútur voru til leiksloka en þá hafði jafnframt einum leikmanni heimaliðsins verið vikið af velli. Emil tók spyrnuna en brást bogalistin.
Ekkert mark var skorað í framlengingu en leikmenn Udinese voru aðeins níu á vellinum þegar henni lauk því öðrum þeirra var vikið af velli tveimur mínútum fyrir lok framlengingarinnar.
Þá þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni og þar sigraði Udinese, 8:7, eftir bráðabana og fer í 8-liða úrslitin en Reggina er úr leik. Emil reyndi fyrir sér í áttundu umferð vítaspyrnukeppninnar og gat þá tryggt Reggina sigur en markvörður Udinese varði frá honum. Úrslitin réðust loks í 10. umferð, þá náði Udinese að knýja fram sigur þegar leikmaður Reggina skaut framhjá markinu.