„Öðruvísi og spennandi“

Katrín Jónsdóttir verður viðstödd EM-dráttinn í Helsinki í dag.
Katrín Jónsdóttir verður viðstödd EM-dráttinn í Helsinki í dag. Carlos Brito/Algarvephotopress

Þrír fulltrúar Íslands verða viðstaddir þegar dregið verður í riðla fyrir lokakeppni Evrópumóts kvenna í knattspyrnu í Finnlandi í hádeginu í dag. Það eru þau Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari, Katrín Jónsdóttir, fyrirliði landsliðsins, og Klara Bjartmarz, skrifstofustjóri KSÍ.

„Þetta er nú dálítið öðruvísi og spennandi,“ sagði Katrín Jónsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, í gær þegar hún var á leiðinni út á Keflavíkurflugvöll áleiðis til Finnlands. „Maður hefur aldrei farið lengra en í Laugardalinn til að vera við svona drátt, en þetta er alvöru og verður spennandi að sjá hvaða mótherja við fáum,“ sagði Katrín.

Dregið verður klukkan 12 að íslenskum tíma, en þetta er í fyrsta sinn sem leikið verður á EM kvenna með tólf þjóðum. Þeim er skipt upp í þrjá styrkleikaflokka sem eru þannig að gestgjafarnir Finnar, Þýskaland og Svíþjóð eru í fyrsta flokki. Í 2. flokki eru Danmörk, England, Frakkland og Noregur og í 3. flokki Ísland Ítalía, Rússland, Úkraína og Holland.

Þrír fjögurra liða riðlar

Dregið verður í þrjá riðla og verður byrjað að draga úr 1. flokki en þar hefur þegar verið ákveðið að Finnland leikur í A-riðli. Því verður dregið um í hvaða riðli Þýskaland og Svíþjóð leika.

Að því loknu verður dregið úr 3. flokki og þar verða tvær þjóðir í tveimur riðlum og fimmta þjóðin í þeim þriðja.

Að síðustu er dregið úr flokki tvö og þar lenda tvær þjóðir saman í einum riðli.

Lokakeppnin fer fram í Finnlandi 23. ágúst til 10. september á næsta ári og verður leikið í Helskinki, Tampere, Turku og Lahti. Tvær efstu þjóðirnar úr hverjum riðli komast áfram í átta liða úrslit ásamt tveimur sem hafa bestan árangur í þriðja sætinu.

Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert